Tölfræðimolar – Adomas Drungilas hefur verið í banni í 12% leikja sinna liða

Þær fréttir bárust í gær að dómarnefnd KKÍ hafi vísað meintu agabroti Adomas Drungilas í fyrsta leik Vals og Tindastóls í úrslitum Subwaydeildar karla til aga- og úrskurðarnefndar, þar sem honum er gefið að sök að hafa slegið Kristófer Acox í höfuðið. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem háttsemi leikmannsins er til meðferðar hjá aga- og úrskurðarnefnd en hún hefur dæmt hann fjórum sinnum í leikbann á þeim tveimur árum sem hann hefur leikið hér á landi.

Snemma í mars 2021 var hann dæmdur í eins leiks bann, seinna í sama mánuði uppskar hann tveggja leikja bann og að lokum þriggja leikja bann í maí sama ár; rétt fyrir úrslitakeppni. Samtals sex leikir í bann á þeirri leiktíð. Þór Þorlákshöfn lék 35 leiki á þeirri leiktíð og var Drungilas því í banni í rúmlega 17% leikja liðsins þann veturinn. Það kom þó ekki að sök því hann átti stóran þátt í því að Þór frá Þorlákshöfn landaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli það sumar.

Yfirstandandi leiktíð hófst svo með látum hjá Drungilas þar sem honum var veitt brottrekstrarvilla í upphafi seinni hálfleiks fyrsta leiks deildarkeppninnar. Þá uppskar hann eins leiks bann.

Sé tekinn saman sá fjöldi leikja sem Adomas Drungilas hefur ekki verið heimilt að spila vegna leikbanns stendur hann í 7 þegar þetta er skrifað. Það gerir 11,9% af þeim leikjum sem hann hefði átt annars að spila í úrvalsdeild karla (35 leikir hjá Þór Þorlákshöfn og 31 leikur hjá Tindastóli).

Nú hefur ekki verið úrskurðað í því máli sem dómaranefnd sendi til aga- og úrskurðarnefndar í gær en verði Drungilas dæmdur í bann gæti það verið allt frá einum og upp í þrjá leiki miðað við fyrri fordæmi. Með mjög einfaldri næmnigreiningu er hægt að sjá hvert hlutfallið verður miðað við mismunandi niðurstöðu.

Drungilas er frábær þriggja stiga skytta og skipta þau skot frá honum mjög miklu máli fyrir Tindastólsliðið því erfitt er að passa teiginn þegar stóri maðurinn í hinu liðinu er að láta rigna fyrir utan. Í 17 af 30 leikjum Tindastóls hefur Drungilas verið með yfir 33,3% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Þegar hann er að skjóta betur en 33,3% þaðan hefur Tindastóll unnið 12 af þessum 17 leikjum (70,6%) og tapað í hinum 5. Þegar hann nær ekki að skjóta betur en 33,3% hefur liðið náð að sigra 7 af þeim 13 leikjum (53,8%) þar sem það hefur gerst en tapa 6. Hlutfall þriggja stiga skota af heild hjá Drungilas hefur hoppað úr 38,7% í deildarkeppninni upp í 59,0% í úrslitakeppninni og nýtingin hoppað úr 42,9% í 47,2%.

Í hinu liðinu höfum við Kristófer Acox sem hefur tíu sinnum náð tvöfaldri tvennu (stig og fráköst) í leikjum vetrarins. Valsmenn hafa sigrað andstæðing sinn í 9 af þessum 10 leikjum (90,0%). Þegar hann er ekki með tvöfalda tvennu sigra Valsmenn 11 af 19 leikjum (58,0%).

Valur var einni körfu frá því að snúa 18 stiga mun í upphafi fjórða leikhluta í unninn leik í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu. Í þeim 97 tilvikum í úrslitakeppni þar sem lið hefur verið 18 stigum eða meira undir í upphafi fjórða leikhluta hafa aðeins tvö lið (2,1%) náð að vinna leikinn. Valur var 19 stigum undir í hálfleik en í 17 af 595 tilvikum (2,9%) hefur liði tekist að sigra leikinn við þær aðstæður.

Tindastóll sigraði leik 1 með 26% þriggja stiga nýtingu í 38 skottilraunum. Aðeins tvisvar áður hefur liði tekist að sigra leik í úrslitakeppni með 38 skottilraunir eða fleiri utan þriggja stiga línunnar og hitt úr 10 eða færri. Alls 6 sinnum hefur þessi staða komið upp og síðast í oddaleik Tindastóls og Vals í maí 2022 þegar Tindastóll skaut 9/40 (22%) í þriggja stiga skotum.

Share the Post:

SKRÁÐU ÞIG Á PÓSTLISTANN